Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 348/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 348/2023

Mánudaginn 21. ágúst 2023

A

gegn

Barnaverndarþjónusta F

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júlí 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Barnaverndarþjónustu F, dags. 11. maí 2023, um að  taka forsjá barna hans, C og D, í sínar hendar á grundvelli 2. mgr. 32. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra, dags. 11. júlí 2023, barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. júlí 2023. Kærð er ákvörðun Barnaverndarþjónustu F, dags. 11. maí 2023, um að taka forsjá tveggja barna kæranda í sínar hendur á grundvelli 2. mgr. 32. gr. bvl. Umrædd ákvörðun var tekin í kjölfar ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um að afturkalla fyrri forsjárskráningu barnanna og þau skráð forsjárlaus í þjóðskrá.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Fram kemur í kæru að um sé að ræða ríkisborgara […] til að sameinast fjölskyldu sinni. Fram kemur að málið varði ákvörðun Barnaverndarþjónustu F um að beita ákvæði 2. mgr. 32. gr. bvl. og færa forsjá barna hans til barnaverndar. Umrædd ákvörðun hafi ekki verið tilkynnt kæranda né lögmanni hans með nokkrum hætti heldur hafi lögmaður kæranda fengið upplýsingar um ákvörðunina hjá Útlendingastofnun. Í ákvörðun barnaverndarþjónustu F, dags. 11. maí 2023, um að taka forsjá barna kæranda í sínar hendur á grundvelli 2. mgr. 32. gr. bvl. komi fram að kærandi hafi ekki verið boðaður til fundarins og verði ekki kynnt ákvörðun barnaverndarþjónustunnar á grundvelli þess að það gæti sett móður og börnin í verulega hættu auk þess að líta yrði til rannsóknarhagsmuna í rannsókn sakamála á hendur kæranda. Kæranda hafi því ekki verið veitt færi á að andmæla hina íþyngjandi ákvörðun barnaverndarþjónustunnar líkt og meginreglur stjórnsýsluréttar kveða á um, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telur að ákvörðun barnaverndarþjónustu F um að taka yfir forsjá barna hans haldi engu vatni. Ísland sé réttarríki og foreldrar verða ekki sviptir forsjá barna sinna nema með dómi, sbr. 29. gr. bvl. Íslenskum stjórnvöldum beri að virða almenn grunnréttindi fólks, t.a.m. rétt til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en skv. 2. mgr. sama ákvæðis skulu opinber stjórnvöld ekki ganga á rétt manna til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis o.fl. Ber í þessu samhengi að líta til greinargerðar með frumvarpi til barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir um 2. mgr. 32. gr. laganna:

„Í 2. mgr. er tekið fram að barnaverndarnefnd tekur forsjá barns í sínar hendur ef það verður forsjárlaust af öðrum ástæðum og hlutast á sama hátt til um að því verði skipaður lögráðamaður, sbr. 1. mgr. Hér t.d. átt við ef barn verður forsjárlaust vegna andláts foreldra.“

Af þessu megi ráða að um neyðarúrræði sé að ræða þegar barn verður forsjárlaust að öðrum ástæðum en þeim þegar foreldrar afsala sér eða hafa verið sviptir forsjá barns, t.d. vegna andláts foreldris. Slíkar aðstæður séu ekki uppi í máli kæranda. Barnaverndarþjónusta F geti ekki tekið ákvörðun um að foreldrar barna fari ekki lengur með forsjá barna sinna vegna þess að enga forsjárskráningu sé að finna hjá Þjóðskrá Íslands sem hafi heldur ekki verið til staðar fyrir. Hin formlega forsjárskráning hjá Þjóðskrá Íslands varðaði aðeins réttindi kæranda til að hljóta alþjóðlega vernd á grundvelli fjölskyldutengsla og öflun slíkrar skráningar hafi verið liður í máli kæranda hjá Útlendingastofnun. Það hvernig Þjóðskrá Íslands vinnur úr þeirri skráningu hafi ekkert með eiginlega eða raunverulega forsjá barnanna að gera. Því hafi ekki verið um slíka neyð að ræða að beita ætti framangreindu neyðarúrræði 2. mgr. 32. gr. bvl. og þar af leiðandi sé um skýr brot á stjórnarskrárvörðum mannréttindum kæranda og dætra hans að ræða.

Að mati kæranda séu skilyrði til beitingar 2. mgr. 32. gr. bvl. ekki uppfyllt og valdbeiting barnaverndarþjónustunnar og rúm túlkun á framangreindu ákvæði fram úr öllu hófi.

Þá hafi barnaverndarþjónustan vitneskju um að Þjóðskrá Íslands hafi fallist á endurupptöku máls vegna viðurkenningar hjónavígslu sem forsjárskráning og afturköllun hennar grundvallast á. Telji barnaverndarþjónusta F að þessi formlega forsjárskráning, og afturköllun hennar, veiti einhverjar heimildir fyrir beitingu 2. mgr. 32. gr. bvl. þá eru þær heimildir ekki lengur til staðar nú þegar Þjóðskrá Íslands hefur fallist á endurupptöku málsins. Forsendur fyrir beitingu þessa ákvæðis samkvæmt hinni kærðu ákvörðun séu því ekki fyrir hendi og hafi aldrei verið.

Auk brots á andmælarétti kæranda hafi barnaverndarþjónustan gerst brotlega á öðrum meginreglum stjórnsýslurétt, s.s. 14. gr., 7. gr. 12. gr.  

II.  Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarþjónustu F, dags. 11. maí 2023, sem tekin var að meðferðarfundi sama dag, var ákveðið að barnaverndarþjónustan tæki forsjá barna kæranda á grundvelli 2. mgr. 32. gr. bvl. með hliðsjón af öryggi þeirra og heilsu.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 úrskurðar nefndin í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.

Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er heimilt að skjóta úrskurðum og örðum stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarþjónustu, umdæmisráða barnaverndar og Barna- og fjölskyldustofu, eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála. Aðrar ákvarðanir stjórnvalda á grundvelli barnaverndarlaga eru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds.

Ljóst er af ákvæðum barnaverndarlaga að ákvörðun barnaverndarþjónustu um að taka forsjá barns í sínar hendur ef það verður forsjárlaust af öðrum ástæðum en greint er frá í 1. mgr. ákvæðisins er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála er því samkvæmt framangreindu ekki ætlað að fjalla um ágreining kærenda og barnaverndarþjónustu F.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt c. lið 2. mgr. 7. gr. bvl. er það m.a. verkefni Barna- og fjölskyldustofu að stuðla að því að vinnsla barnaverndarmála sé í samræmi við lög, reglugerðir og leiðbeiningar.

Með vísan til alls framangreinds er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru frá 11. júlí 2023 vegna ákvörðunar Barnaverndarþjónustu F, dags. 11. maí 2023, um að um að taka forsjá barna kæranda í sínar hendur, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum